Innlent

Greenpeace kemur í heimsókn

Í dag 17. júní hefst vikuheimsókn skips náttúrverndarsamtakanna Greenpeace, MV Arctic Sunrise, hingað til lands þegar skipið leggur að við Ægisgarð í Reykjavík. Frode Pleym, talsmaður Greenpeace, segir samtökin virða þjóðhátíðardag Íslendinga og verði því ekki um neinar opinberar uppákomur á vegum samtakanna að ræða í dag. "Þó verður "opið hús" um borð í skipinu og gestum og gangandi velkomið að koma og skoða sig um," sagði hann. Klukkan 10 á mánudagsmorgun verður svo boðað til blaðamannafundar um borð þar sem fjallað verður bæði um hvalveiðar þjóðarinnar og svo um hlýnun á norðurslóðum sem haft getur í för með sér verulegar breytingar á náttúrufari um allan heim. Heimsókn skipsins til landsins nú er sögð af því tilefni að tvö ár eru liðin síðan stjórnvöld hér heimiluðu hvalveiðar í vísindaskini. Heimsóknin fer fram á sama tíma og yfir stendur fundur Alþjóðahvalveiðiráðsins í Kóreu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×