Lífið

Sönnunargögnin ekki nógu sterk

„Sönnunargögnin voru bara ekki nógu sterk,“ segja kviðdómendurnir sem í gær sýknuðu poppgoðið Michael Jackson af öllum ákærum í kynferðisbrotamálinu gegn honum. Aðdáendur Jacksons fagna en spurningin er hvort hann á afturkvæmt í poppheiminn. Það voru átta konur og fjórir karlmenn í kviðdóminum sem sýknaði Jackson. Samkvæmt bandarískum lögum verða sönnunargögn saksóknarans að vera hafin yfir allan vafa og það mistókst Tom Sneddon saksóknara í þessari annarri tilraun sinni til þess að koma Jackson á bak við lás og slá. Fyrra mál Sneddons rann út í sandinn þegar Jackson samdi við ákæranda sinn um að láta málið niður falla gegn himinháum peningagreiðslum. Á blaðamannafundi eftir úrskurð sinn sögðu kviðdómendurnir að þrátt fyrir að saksóknarinn hefði leitt fram yfir áttatíu vitni hefðu þeir ekki fengið næg sönnunargögn fyrir því að Jackson hefði misnotað þrettán ára gamlan drenginn kynferðislega, fengið honum áfengi og haldið fjölskyldu hans fanginni á Neverland-búgarði sínum. „Þetta var bara ekki nóg,“ sögðu kviðdómendurnir. Lögspekingar segja að það sem hafi ráðið úrslitum hafi verið að ákærendurnir, þ.e.a.s. drengurinn og fjölskylda hans, hafi ekki verið trúverðug. Verjandinn kallaði þau svikahrappa, leikara og lygara og lék þau hart í yfirheyrslum. Sérstaklega þótti móðirin ótrúverðug og kviðdómendurna grunar að hún hafi staðið á bakvið þetta allt saman, í von um að hafa fé út úr Jackson. Þeim fannst hún ógeðfelld manneskja. „Mér mislíkaði mjög þegar hún smellti fingrum að okkur,“ sagði sjötíu og níu ára gömul amma sem var einn kviðdómenda. „Ég hugsaði með mér: ekki smella fingrum að mér.“ Lögfræðingar Jacksons voru auðvitað í sjöunda himni eftir sigurinn og Sneddon saksóknari að sama skapi argur. Hann sagði fráleitt að hann bæðist afsökunar en þessi ósigur gerir lítið fyrir feril hans í embætti. Menn spyrja eðlilega hvað nú taki við. Málaferlin hafa kostað Jackson milljarða og sögur eru á kreiki um að hann sé jafnvel gjaldþrota. Hann er líka orðinn fjörutíu og sex ára gamall og spurning um hvort hann á einhverja framtíð fyrir sér. Það er því spurning hvort hann sé hreinlega búinn að vera. Aðrir benda á að Jackson hafi sýnt að í honum búi frábær listamaður og að aðdáendur hans teljist enn í tugum eða hundruðum milljóna. Ef hann taki sig á geti hann því allt eins snúið aftur.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.