Lífið

Allar sumarbúðir að fyllast

Vikudvöl í sumarbúðum kostar í kringum 25 þúsund krónur á mann. Þrátt fyrir það eru allar sumarbúðir að fyllast sem og leikjanámskeið en vikan á þau kostar á milli fjögur og sjö þúsund krónur. Stöð 2 fór og kynnti sér það helsta sem í boði er fyrir grunnskólabörn á öllum aldri í sumar. Það er ekki ókeypis að hafa ofan af fyrir börnum í sumar en framboðið er þó gott og eflaust sjaldan verið betra. KFUM og KFUK, Skátarnir og ÍTR ásamt íþróttafélögunum keppast við að fá krakka á námskeið til sín og eru leikjanámskeiðin frá fjögur þúsund krónum dagurinn.  Meðalverð í sumarbúðir á mann er um 25 þúsund krónur. Við Úlfljótsvatn hafa Skátarnir síðustu sextíu árin boðið upp á fjörugar sumarbúðir en þar kostar vikan á mann 24.900 krónur. Það kemur eflaust einhverjum á óvart en það er dýrara að senda strákana en stelpurnar í fjörið hjá KFUM og KFUK en vikan í Vatnaskógi kostar 26.900 krónur á meðan vikan í Ölveri kostar 24.300 krónur. Þegar fréttastofan leitaði skýringa á málinu kom í ljós að strákarnir hafa aðgang að bátum sem dýrt er að halda við en ekkert vatn er við Ölver og því engir bátar. Vikan í öðrum sumarbúðum er á svipuðu verði. Og ÍTR lætur sitt ekki eftir liggja í málum þessum en leikjanámskeið eru haldin í flest öllum félagsheimilinum í sumar. Þau kosta 4.400 krónur heill dagur og 2.200 krónur fyrir hálfan dag og eru vikulöng.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.