Erlent

Sjálfsmorðsárás í Kasmír

Fimmtán létust og sextíu særðust í sjálfsmorðssprengjuárás í Kasmír í gær. Á meðal þeirra sem létust var fjórtán ára gamall piltur. Pallbíl, sem hlaðinn var fjörutíu kílóum af sprengiefni, var ekið í gegnum bæinn og hann svo sprengdur í loft upp með þessum afleiðingum. Skömmu eftir sprenginguna þustu íbúar úr nálægum húsum út á götu og varð svo mikið ónæði af fólkinu að lögreglumenn beittu táragasi á það. Enginn hefur lýst ábyrgð á hendur sér. Samtök sem styðja Pakistan í Kasmírdeilunni hafa lýst yfir allsherjarverkfalli í dag til að mótmæla sprengjuárásinni. Tugir íslamskra skæruliðahópa hafa barist fyrir því í rúm fimmtán ár að Kasmírhéraðið öðlist sjálfstæði frá Indlandi eða sameinist Pakistan. Á þessum tíma er talið að um 66 þúsund manns hafi látist í átökum. Friðarumleitanir á milli Pakistans og Indlands síðasta eina og hálfa árið hafa nokkuð náð að lægja ófriðaröldurnar í Kasmír og nú eru einmitt níu leiðtogar aðskilnaðarsinna í heimsókn í héraðinu leitandi leiða til að koma á friði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×