Lífið

Norðurlandamafían engu betri

Þeir sem halda því fram að Austur-Evrópumafían hafi verið allsráðandi við stigagjöfina í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í gær ættu að líta sér aðeins nær. Mafían var ekki minni þegar Norðurlandaþjóðirnar voru annars vegar. Það var hin grísk-sænska söngkona Helena Paparizou sem vann hug og hjörtu Evrópubúa með laginu „My number one“ og tryggði Grikkjum sigur í fimmtugustu söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva sem haldin var í Kænugarði í Úkraínu. Grikkir fengu langflest stig, eða 230. Í öðru sæti hafnaði Malta með söngkonunni Chiöru Siracusa. Rúmenar lentu í þriðja sæti, Ísrael í því fjórða og Lettar enduðu í fimmta sæti. Norska sveitin Wig Wam þótti einna sigurstranglegust en Norðmenn þurftu að láta sér lynda níunda sætið af þeim tuttugu og fjórum þjóðum sem kepptu til úrslita. Greint var frá því í úrslitakeppninni í gærkvöldi að íslenska lagið, með Selmu Björnsdóttur fremsta í flokki, hafnaði í sextánda sæti af tuttugu og fjórum í forkeppninni en Rúmenar voru þar í efsta sætinu. Mörgum hefur verið tíðrætt um það hversu áberandi Austur-Evrópumafían hafi verið við stigagjöfina í keppninni þar sem nágrannaþjóðir gáfu hver annarri flest stig. Þetta var ekki síður áberandi þegar fylgst var með stigagjöf Norðurlandaþjóðanna. Ef litið er á stigin í undankeppninni þá gáfu Danir Norðmönnum 12 stig, Íslendingum 10 stig, og Finnum 8 stig. Norðmenn gáfu Dönum 12 stig, Finnum 10 og Íslandi 8. Svíar gáfu Dönum 12 stig, Finnum 10, Norðmönnum 8 og Íslendingum 7 stig. Ísland gaf Norðmönnum 12 stig og Dönum 10. Í aðalkeppninni í gærkvöldi gáfu Danir Norðmönnum 12 stig og Svíum 7. Danir fengu 12 stig hjá Norðmönnum og 10 stig hjá Finnum en Finnar gáfu Norðmönnum svo 12 stig. Svíar gáfu Dönum 10 stig og Norðmönnum 8 og Íslendingar gáfu frændum sínum Norðmönnum 12 stig og Dönum 10.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.