Lífið

Norðurljós með tónleika

Sönghópurinn Norðurljós heldur sína fyrstu tónleika sunnudaginn 22. maí næstkomandi. Einsöngvari er Elmar Þór Gilbertson tenór. Á dagskrá eru íslensk og erlend lög og verður m.a. frumflutt lagið „You raise me up“ eftir Brendan Graham sem Josh Groban gerði frægt við texta Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar og ber heitið „Þú leiðir mig“. Á tónleikunum verða einnig flutt íslensk ættjarðar- og dægurlög s.s. „Þakklæti“ Magnúsar Kjartanssonar, Vísur Vatnsenda Rósu og „Braggablús“ eftir Magnús Eiríksson svo eitthvað sé nefnt. Stjórnandi er Arngerður M. Árnadóttir. Sönghópurinn Norðurljós var stofnaður haustið 2004 af hópi einstaklinga sem höfðu áður sungið mikið saman. Undir dyggri stjórn Arngerðar hafa verið stífar æfinga í vetur og er nú afraksturinn að koma í ljós. Arngerður lauk B.A prófi í tónlist frá háskólanum í Álaborg sumarið 2000. Síðan þá hefur hún mestmegnis starfað hér á landi sem píanókennari, meðleikari, og kórstjóri ásamt því að stunda nám við Tónskóla Þjóðkirkjunnar þar sem hún stefnir að kantorsprófi. Einsöngvari kórsins, Elmar Þór Gilbertsson hóf söngnám við Nýja söngskólann „Hjartans mál” fyrir fjórum árum og stundar nú nám hjá Jóni Þorsteinssyni. Dagskrá kórsins er góður kokteill og er líklegt að flestir tónlistarunnendur finni þar eitthvað við sitt hæfi. Tónleikarnir verða sunnudaginn 22. maí kl. 17.00 í Seljakirkju. Sjá nánar: http://www.this.is/kor





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.