Lífið

Kvöld í Hveró - Stefán og Eyfi

Stefán og Eyfi efna á föstudag til tónleika í Selfosskirkju, í samvinnu við menningarhátíðina Vor í Árborg. Tónleikarnir eru samstarfsverkefni tónleikararaðarinnar Kvöld í Hveró og menningarhátíðarinnar Vor í Árborg  sem fram fer helgina 20.- 22. maí. Stefán og Eyfi eru nánast orðnir stofnanir í íslensku poppi og er þeirra framlag til íslenskrar tónlistar ómetanlegt. Stefán Hilmarsson hefur starfað að tónlist meira eða minna frá árinu 1986. Í fyrstu söng hann með hljómsveitinni Sniglabandinu en síðar aðallega með Sálinni hans Jóns míns, sem stofnuð var vorið 1988 og hefur starfað með nokkrum hléum síðan. Stefán hefur sungið fjölda laga inn á hljómplötur, geisladiska og í kvikmyndum, jafnt lög eftir sig sem aðra. Flest lög hefur hann þó hljóðritað með Sálinni hans Jóns míns, sem sent hefur frá sér alls ellefu breiðskífur.  Stefán hefur einnig sent frá sér þrjár sóló-plötur. Óhætt er að segja að hann sé í hópi afkastameiri höfunda og flytjenda á tíunda áratugi 20. aldarinnar og á öndverðri 21. öldinni, en skráð verk eftir Stefán eru tæplega 200 talsins. Eyjólfur Kristjánsson  daðraði fyrst við tónlistargyðjuna í Kerlingarfjöllum, hvar hann var tíður gestur á uppvaxtarárum sínum, einkum á sumrin. Þar komst hann í fyrsta sinn í snertingu við kassagítar, sem verið hefur aðalhljóðfæri hans alla tíð síðan. Árið 1986  gekk Eyfi til liðs við Jón Ólafsson og félaga hans í Bítlavinafélaginu. Það félag starfaði við miklar vinsældir til ársins 1990.  Frá árinu 1988 hefur Eyjólfur sent frá sér fimm sóló-plötur. Eyfi hefur er einn af reyndustu bakröddasöngvurum landsins, og er eftirsóttur sem útsetjari á því sviði. Eyjólfur hefur frá fyrstu tíð látið að sér kveða sem lagahöfundur bæði fyrir sig og aðra. Á tónleikunum í Selfosskirkju munu þeir Stefán og Eyfi flytja tónlist bæði eftir sig sem og aðra og verður stemningin ógleymanleg í kirkjunni á föstudagskvöldið. Prímadonnur frá Selfossi hita upp. Yfirlýst markmið tónleikaraðarinnar Kvöld í Hveró er að auka fjölbreytni í menningu á  svæðinu, opna augu almennings fyrir þeim möguleika að íslensk popptónlist eigi ekki síður heima í kirkju en klassíkin og gefa ungu og hæfileikaríku tónlistarfólki af Suðurlandi tækifæri til að að hita upp fyrir þá listamenn sem fram koma. Hljómburður í Selfosskirkju þykir mjög góður.    Aðstandendur Kvölds í Hveró eru Norsk-Íslenska Skjallbandalagið Inc. sem í eru Ásgerður Eyþórsdóttir og Monica Haug. Tvennir tónleikar eru eftir í röðinni: 20. maí - Eyfi og Stefán. - Prímadonnur frá Selfossi hita upp.  3. júní -    Hljómsveitin Hjálmar. Helgi Valur Ásgeirsson hitar upp. Miðaverð er 1500 krónur.   Frekari upplýsingar má finna á  www.kvoldihvero.go.iswww.tonlist.is  og í síma 692 8531.  Sala á miðum fer fram við kirkjudyr.  Hægt er að panta miða á netinu og í síma 692 8531.   Tónleikar Stefáns og Eyfa,  verða haldnir í Selfosskirkju, í samvinnu við menningarhátíðina Vor í Árborg  sem fram fer 20. til 22. maí.  Konsertinn hefst kl. 21.00 en kirkjan opnar kl. 20.30 og er fólki bent á að koma tímanlega til að ná örugglega í miða. Ekki er tekið við kortum.  Hótel Örk í Hveragerði býður einnig upp á Nótt í Hveró í tengslum við tónleikana.  Boðið er upp á gistingu með morgunverði ásamt tónleikamiða á aðeins 4900 kr. fyrir mann í tvíbýli.  Pantanasími er 483 4700.  Tilboðið gildir þá daga sem tónleikar eru haldnir.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.