Lífið

Eastwood og Spielberg til landsins

Clint Eastwood og Steven Spielberg eru væntanlegir hingað til lands til að framleiða stórmynd byggða á bókinni Flags of our Fathers. Eastwood fer fram á fábreyttan gististað meðan á dvölinni stendur. Þeir Spielberg og Eastwood eru væntanlegir hingað til lands þann 21. júní næstkomandi og verða að öllum líkindum til enda sumars, eða þegar framleiðslu myndarinnar er lokið. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum fréttastofunnar verður kvikmyndin, sem fjallar um árás Bandaríkjamanna á eyjuna japönsku Iwo Jima, mynduð að mestum hluta á Arnarfelli í Krísuvík. Innitökur munu að mestu fara fram í myndveri Latabæjar en þar munu m.a. fara fram tökur á kafbátasenum, skotgrafarsenum og loftbirgjasenum. Talið er að allt að 450 manns muni fylgja stórstjörnunum hingað til lands en samstarf er hafið við Hafnarfjarðarbæ og Reykjanesbæ. Ekki hefur verið gefið út hverjir aðrir fái hlutverk í myndinni. Samkvæmt heimildum fréttastofu vill Eastwood ekki vera á fyrsta flokks hótelum heldur á látlausum hótelum, helst í Hafnarfirði og í Keflavík. Hann vill heldur ekki að fjölmiðlar komist að því hvenær hann komi til landsins, en eins og fyrr segir verður það 21. júní næstkomandi.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.