Lífið

Miðasala á tónleika Kim Larsen hefst í fyrramálið

Miðasala á tónleika Kim Larsen og Kjukken hefst í fyrramálið, föstudaginn 13. maí kl. 10 í verslun 12 Tóna við Skólavörðustíg og á midi.is. Miðaverð er 4.900 kr. Komu Kim Larsen hefur verið beðið með nokkurri eftirvæntingu og má búast við að það takmarkaða magn miða sem er í boði seljist fljótlega. Það er óhætt að fullyrða að sannkallaður hvalreki bíði tónleikaþystra Íslendinga í sumar. Kim Larsen mætir þá til leiks ásamt hljómsveit sinni Kjukken. Þeir félagar ætla að halda tvenna tónleika á Nasa við Austurvöll þann 26. og 27. ágúst n.k. Kim lýkur þar með sumartónleikaferð sinni um Danmörku og Færeyjar sem hófst reyndar í London þann 23. apríl sl. Kim Larsen hefur sl. 5 ár gefið út hverja metsöluplötuna á fætur annarri í Danmörku og Skandínavíu eftir nokkur mögur á þar á undan. Á síðasta ári átti kappinn tvær metsöluplötur í Danmörku sem báðar náðu margfaldri platínusölu. Þetta voru plöturnar 7-9-13 sem kom út fyrir jólin 2003 og Glemmebogen - Jul og nyt år sem kom út fyrir jólin 2004. Ferill Kim Larsen er ótrúlega farsæll og það hallar ekki á neinn þegar hann er nefndur skærasta stjarna danskrar tónlistar fyrr og síðar. Hljómsveitin Gasolin sem Kim leiddi á 8. áratugnum náði gríðarlegum vinsældum og eru lög eins og Kvinde min og Rabalderstræde eru  nánast þjóðlög í Danmörku. Eftir að Kim Larsen sagði skilið við Gasolin og hóf sólóferil sinn hefur hann notið fádæma vinsælda. Lög eins og Papirsklip, Blip-Båt, Midt om natten, Susanne Himmelblå, Den Allersidste dans og Jutlandia eru klassísk. Hljómplatan Midt om natten er enn þann dag í dag söluhæsta hljómplatan í Danmörku fyrr og síðar. Kim Larsen flutti til Óðinsvéa 1994 og stofnaði ári síðar hljómsveitina Kjukken sem hann hefur spilað með síðan þá. Hljómsveitina skipa auk Kim þeir Karsten Skovgaard gítar, hljómborð og raddir, Jesper Rosenqvist á trommur og raddir og Jesper Haugaard á bassa. Kim Larsen kom til Íslands fyrir 17 árum og troðfyllti Broadway nokkrum sinnum.   Það er Austur Þýskaland sem stendur að komu Kim Larsen til Íslands.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.