Erlent

Ekki slakað á áritanareglum

Ekki náðist samkomulag um að Evrópusambandið slakaði á reglum um vegabréfsáritanir fyrir rússneska ríkisborgara á leiðtogafundi Rússlands og ESB í Moskvu í gær. En endurnýjuðum samstarfs- og viðskiptasamningi Rússa og sambandsins var þó fagnað sem stórum áfanga að bættum tengslum. Þessi tengsl gengu undir mikla prófraun er fyrrverandi austantjaldslönd gengu í sambandið í fyrra. Samstarfssamningurinn snýr aðallega að efnahags- og viðskiptamálum. Hann endurspeglar annars vegar mikla eftirspurn Evrópusambandslandanna eftir ódýrum orkugjöfum í formi jarðgass og olíu frá Rússlandi, og fjárfestingaþörf Rússa hins vegar. "Markmið okkar er að skapa sameiginlegt evrópskt efnahagssvæði í þágu allra borgara í löndum okkar. Sameiginleg gildi og sameiginlegir hagsmunir eru kjarninn í tengslum okkar," sagði Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB á blaðamannafundi með Vladimír Pútín Rússlandsforseta.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×