Lífið

Harmi slegin yfir aðstæðunum

Hollywood-leikkonan Angelina Jolie er harmi slegin yfir þeim aðstæðum sem afganskir flóttamenn búa við. Jolie var í fjögurra daga heimsókn í Pakistan sem velgjörðarsendiherra Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og ræddi meðal annars við Musharaff, forseta landsins, og Aziz forsætisráðherra. Meðal þess sem hún fylgdist með var ferð um 500 afganskra flóttamanna til stríðshrjáðs heimalands síns, eftir áratugadvöl í útlegð, en þegar hafa um50 þúsund flóttamenn snúið aftur til Afganistans. Frá því Jolie varð velgjörðarsendiherra hefur hún heimsótt meira en 15 lönd, meðal annars hið stríðshrjáða Darfur-hérað í Súdan. Jolie sagði flesta sammála um hvað þyrfti að gera til að flýta fyrir þróun í Afganistan og lagði áherslu á að ekki mætti þvinga flóttamenn til þess að snúa til baka. Leikkonan sagði aðstæður flóttamannanna átakanlegar, það átakanlegar að hún hafi grátið mikið yfir þeim. Hún kvaðst vona að hún hefði lausn við vandanum en svo væri ekki. Þetta væri eins og að spyrja hvernig eigi að útrýma fátækt. „Við verðum að jafna út auðlindir heimsins,“ sagði Jolie. „Það er mikið verk óunnið. Það fyrsta sem þarf að gerast er að við einbeitum okkur úti um allan heim að menntun, heilsugæslu og réttindum barna.“





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.