Innlent

Eftirlaunamálið enn óútkljáð

Davíð Oddsson utanríkisráðherra hefur lýst því yfir að hann telji ekki þörf á að endurskoða lög um eftirlaun þingmanna og ráðherra sem samþykkt voru í desember 2003. Hann benti jafnframt á að ákvæðið sem deilurnar standa um, um rétt þingmanna og ráðherra til að þiggja eftirlaun um leið og laun fyrir önnur launuð störf á vegum ríkisins, hefði þegar verið að finna í lögunum og því væri það ekki nýtt af nálinni. Umræðan um eftirlaunalögin vaknaði í janúar síðastliðnum þegar Fréttablaðið benti á að á síðasta ári fengu sjö fyrrverandi ráðherrar greiddar samtals sautján milljónir í eftirlaun þrátt fyrir að vera í fullu starfi á vegum ríkisins. Í kjölfarið hét Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra því að lögin yrðu endurskoðuð og í sama streng tóku formenn allra annarra flokka en Sjálfstæðisflokksins. Síðastliðinn laugardag skýrði Fréttablaðið frá því að ágreiningur væri milli stjórnarflokkanna um hvort breyta þyrfti eftirlaunalögunum. Framsóknarmenn væru staðráðnir í því að afnema ákvæðið um rétt til tvöfaldra launa úr lögunum en sjálfstæðismenn segðu það ekki koma til greina. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur ágreiningurinn meðal annars staðið um það hvort brotið yrði gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar ef tekinn yrði af mönnum réttur sem þeim þegar hefur verið fenginn, það er rétturinn til að þiggja eftirlaun og laun samhliða. Framsóknarflokkurinn tók málið til umfjöllunar á þingflokksfundi í gær eins og til stóð og hefur afstaða þingmanna til endurskoðunar laganna ekki breyst, að sögn Hjálmars Árnasonar þingflokksformanns. Einar K. Guðfinnsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að loknum þingflokksfundi í gær að málið hefði ekki verið rætt. "Enda eru þessi lög ekki ný, þau voru samþykkt fyrir tveimur árum og því ástæðulaust að ræða þau á þingflokksfundi," sagði hann. Umræðan vaknaði í janúar Halldór Ásgrímsson sagði í umræðum um eftirlaunalögin á Alþingi í janúar síðastliðnum að tilgangurinn með lögunum hefði ekki verið að bæta kjör fyrrverandi stjórnmálamanna sem gegndu nú öðrum störfum hjá ríkinu. "Breytingarnar sem voru gerðar miðuðu meðal annars að því að bæta kjör stjórnarandstöðuformannanna og gera stjórnmálamönnum kleift að hætta fyrr," sagði Halldór þá. "Mönnum sást einfaldega yfir þetta og ég tel rétt að taka þetta til athugunar." Halldór taldi jafnframt líklegt að lagabreytingu þyrfti til. Síðan þá hefur vinna staðið yfir í forsætisráðuneytinu þar sem stefnt er að smíðum stjórnarfrumvarps til breytinga á eftirlaunalögunum með það að markmiði að afnema þennan möguleika tvöfaldra launa. Eftirlaunaréttur rýmkaður Helstu breytingar sem nýju eftirlaunalögin höfðu í för með sér þegar þau voru samþykkt í desember 2003 voru þær að alþingismenn og ráðherrar sem höfðu gegnt forustuhlutverki í stjórnmálum um langan tíma öðluðust sérstakan rétt til að hverfa af vettvangi þjóðmála og fara á eftirlaun fyrr en annars er heimilt, við 55 ára aldur, í stað þess að leita sér starfs á vinnumarkaði. Ráðherrar öðluðust rétt til töku eftirlauna við sextugt hefðu þeir setið sex ár á ráðherrastóli en 55 ára hefðu þeir setið á ráðherrastóli í ellefu ár. Einnig voru sett ákvæði sem skertu þessar greiðslur fram að 65 ára aldri ef sá sem nyti þeirra tæki við öðru starfi. Þetta átti að auðvelda eðlilega endurnýjun í stjórnmálum og draga úr þeirri tilhneigingu að fyrrverandi forustumenn á þeim vettvangi sæktu í embætti í stjórnkerfinu til þess að ljúka starfsferli sínum. Frumvarpið ekki afgreitt í fljótheitum Margir þingmenn hafa eftir að gagnrýnisraddir fóru að heyrast um lögin gripið til þeirra útskýringa að tími hafi ekki gefist til að skoða málið nægilega vel á sínum tíma. Þegar umræðurnar um frumvarpið á Alþingi eru skoðaðar kemur í ljós að Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, heldur því fram að málið hafi síður en svo verið afgreitt í fljótheitum. "Þetta mál er ekki afgreitt í skjóli nætur. Þessu máli er ekki hraðað á einum, tveimur klukkutímum í gegnum þingið. Það er ekki gert og stóð ekki til. Þetta mál, þegar menn hafa kynnt sér það, liggur fyrir eins og opin bók. Það eru engin leynd réttindi í þessu máli, engin. Það hlýtur að hafa heilmikla þýðingu fyrir menn sem horfa á afgreiðslu málsins," sagði Davíð.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×