Lífið

Búningurinn afhjúpaður

Búningurinn sem Súperman mun klæðast í nýrri kvikmynd sem er væntanleg sumarið 2006 hefur verið afhjúpaður. Rauða skikkjan og blái spandex-gallinn eru enn til staðar og í raun er búningurinn nánast alveg eins og sá sem Christopher Reeve klæddist í myndunum fjórum um ofurmennið sem gerðar voru á áttunda og níunda áratugnum. Leikstjórinn Bryan Singer segist hafa viljað halda sígildu útliti ofurmennisins. Þrátt fyrir að hafa látið breyta búningum ofurhetjanna í X-men-myndunum, sem hann leikstýrði einnig, taldi hann ekki þörf á því í þetta skiptið. "Þrátt fyrir að X-men hefðu verið miklum hæfileikum gæddir höfðu þeir einnig líkamlega veikleika," sagði Singer. "Búningarnir þeirra vernduðu þá en Súperman er stálmaðurinn. Byssukúlurnar hrökkva af honum, ekki fötunum sem hann klæðist. Hann er óhræddur." Hinn áður óþekkti Brandon Routh mun fara með hlutverk Súperman í nýju myndinni sem er beðið eftir með mikilli eftirvæntingu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.