Innlent

Eftirlaunalögum ekki breytt

Davíð Oddsson telur enga ástæðu til að breyta lögum um eftirlaun æðstu embættismanna eins og Halldór Ásgrímsson hefur lýst yfir að hann telji nauðsynlegt að gera. Davíð telur gagnrýni á lögin á misskilningi byggða. Í lok janúar á þessu ári var töluverð umræða um það í fjölmiðlum að nokkrir fyrrverandi ráðherrar fengu ríflegt eftirlaun ofan á laun fyrir fullt starf hjá hinu opinbera. Þetta var talið afleiðing af umdeildum breytingum á eftirlaunalögunum og sagðist forsætisráðherra þá vera ósáttur við það. Aldrei hafi verið hugmyndin að þetta tæki til manna í föstu starfi hjá ríkinu. Beðið hefur verið eftir frumvarpi til breytinga á þessum lögum en útlit er fyrir að það komi ekki í bráð, í það minnsta ekki á þessu kjörtímabili. Davíð segir eftirlaunalögin tiltölulega ný. Hann hafi heyrt að þau hafi verið sett sérstaklega vegna hans en sé ekki á þeim buxunum að hætta, a.m.k ekki á meðan hann haldi heilsu og afli. Aðspurður um ummæli Halldórs í janúar varðandi breytingar á lögunum segist Davíð telja að forsætisráðherra hafi sagt að málið kæmi til athugunar. „Ég hef ekki orðið var við neinar sérstakar tillögur um það efni,“ segir Davíð. Davíð segir sem sagt að tvöfaldar greiðslur til fyrrverandi ráðherra ekki hafa neitt með síðustu breytingar á eftirlaunalögunum að gera, sá möguleiki hafi verið í lögunum fyrir. Heimildamenn fréttastofu úr röðum framsóknarmanna telja samt sem áður ástæðu til breytinga og segja málið stranda í Sjálfstæðisflokknum. Davíð segist ekki kannast við það.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×