Lífið

Kvöld í Hveró - Fabúla

Fabúla heldur tónleika í Hveragerðiskirkju föstudagskvöldið 22. apríl en tónleikar hennar eru liður í konsertröðinni Kvöld í Hveró. Sveitasynir hita upp fyrir Fabúlu. Margrét Kristín Sigurðardóttir (Fabúla) kom fyrst fram á sjónarsviðið þegar hún sendi frá sér plötuna "Fabula - Cut my strings" haustið 1996.  Tónlist hennar og sviðsframkoma  heillaði íslenska áheyrendur og var þessi frumraun hennar á tónlistarsviðinu tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna, þá um haustið.  Fabúla tók þátt í forkeppni Eurovision á Íslandi árið 2001 með laginu "Röddin þín" sem hafnaði í þriðja sæti.  Platan "Kossafar á ilinni" kom út á því ári og vakti verðskuldaða athygli og hlaut einnig tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna. Textar Margrétar Kristínar eru margir hverjir sögur eða myndhverfingar og er tónlist hennar undir miklum leikhúsáhrifum. Á tónleikunum Hveragerðiskirkju mun hún flytja töluvert af nýju efni, en einnig lög af geislaplötunum "Cut My Strings" og "Kossafar á ilinni". Hljómsveit Fabúlu skipa Jökull Jörgensen (bassi),  Birkir Gíslason (gítar), Erik Quick á trommur og Margrét Kristín (söngur, píanó og orgel). Sveitasynir hita upp fyrir Fabúlu.  Þeir koma sterkir inn á tónleikasenuna nú í vor og flytja einungis frumsamið efni.  Yfirlýst markmið Kvölds í Hveró er að auka fjölbreytni í menningu á  svæðinu, opna augu almennings fyrir þeim möguleika að íslensk popptónlist eigi ekki síður heima í kirkju en klassíkin og gefa ungu og hæfileikaríku tónlistarfólki af Suðurlandi tækifæri til að að hita upp fyrir þá listamenn sem fram koma. Hljómburður í Hveragerðiskirkju þykir einstaklega góður. Aðstandendur Kvölds í Hveró eru Norsk-Íslenska Skjallbandalagið Inc. sem í eru Ásgerður Eyþórsdóttir og Monica Haug.   Dagskrá Kvölds í Hveró er svohljóðandi: 22. apríl - Fabúla.  Sveitasynir hita upp 6. maí -    KK og Ellen.  Jón Gunnar Þórarins hitar upp 20. maí -  Eyfi og Stefán. Prímadonnur frá Selfossi hita upp  3. júní -    Hljómsveitin Hjálmar. Helgi Valur Ásgeirsson hitar upp Miðaverð á tónleikana er 1.500 krónur. Frekari upplýsingar má finna á  kvoldihvero.go.istonlist.is  og í síma 692 8531.  Sala á miðum fer fram í Hljóðhúsinu á Selfossi og við kirkjudyr. Hótel Örk í Hveragerði býður einnig upp á Nótt í Hveró í tengslum við tónleikana.  Boðið er upp á gistingu með morgunverði ásamt tónleikamiða á aðeins 4900 kr. fyrir mann í tvíbýli.  Pantanasími er 483 4700.  Tilboðið gildir þá daga sem tónleikar eru haldnir. Allir tónleikarnir fara fram á föstudagskvöldum kl 21:00 í Hveragerðiskirkju nema tónleikar Stefáns og Eyfa, sem haldnir verða í Selfosskirkju, í samvinnu við menningarhátíðina Vor í Árborg  sem fram fer 20. til 22. maí n.k. Skipulagning hennar stendur nú yfir.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.