Erlent

Berlusconi biðst lausnar

Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, baðst í gær lausnar fyrir ríkisstjórn sína. Ekki er þó talið að boðað verði til kosninga heldur mun Berlusconi mynda nýja hægristjórn til að styrkja stöðu sína. Talsverð ólga hefur verið í ítölskum stjórnmálum undanfarnar vikur eftir að stjórnarflokkarnir biðu afhroð í héraðskosningum í mánaðarbyrjun. Í síðustu viku sögðu tveir smáflokkar skilið við stjórnina og þegar flokkur Gianfranco Fini utanríkisráðherra hótaði að hætta stuðningi sínum við hana á þriðjudag varð ljóst að dagar stjórnarinnar væru taldir. Í gær tilkynnti Berlusconi ítalska þinginu að hann hygðist biðjast lausnar og setja saman nýja stjórn svo fljótt sem auðið væri. Hann kvaðst þess fullviss að hún myndi sitja fram að næstu kosningum, sem haldnar verða á næsta ári. Að því búnu hélt hann á fund Carlo Azeglio Ciampi forseta og afhenti honum afsagnarbréf sitt. Þar með lýkur valdatíma þaulsætnustu ríkisstjórnar Ítalíu frá stríðslokum en hún tók við völdum árið 2001. Þótt Ciampi hafi vald til að ákveða hverjum hann veitir umboð til stjórnarmyndunar eða að rjúfa þing og boða til kosninga eru allar líkur taldar á því að Berlusconi muni eingöngu stokka upp valdahlutföllin í gömlu stjórninni og mynda nýja á næstu dögum enda er vilji til þess hjá leiðtogum samstarfsflokkanna. Stjórnarandstaðan með Romano Prodi í broddi fylkingar hefur sótt hart að stjórnarliðum og virðast kjósendur vera að snúast á sveif með henni. Slæmt efnahagsástand og þátttaka Ítalíu í Íraksstríðinu eru helstu ástæður óvinsælda stjórnar Berlusconi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×