Erlent

Engin sátt milli Kína og Japans

Ráðamenn í Japan og Kína eru að íhuga að stefna leiðtogum beggja landa saman til að freista þess að lægja öldurnar í verstu milliríkjadeilu sem komið hefur upp í samskiptum asísku stórþjóðanna tveggja í þrjá áratugi. Ásakanir gengu í gær áfram á víxl milli Peking og Tókýó vegna and-japanskrar múgæsingar í Kína og þess sem Kínverjar álíta vera tregðu Japana til að fara rétt með sögu japanska hernámsins í Kína á dögum síðari heimsstyrjaldar. Talsmenn Kínastjórnar greindu frá því að stjórnvöld í Tókýó hefðu lagt til að japanski forsætisráðherrann Junichiro Koizumi og kínverski forsetinn Hu Jintao tækju tal saman á ráðstefnu leiðtoga Asíu- og Afríkuríkja sem fram fer í Indónesíu um næstu helgi. "Við erum enn að íhuga þetta," sagði kínverski aðstoðarutanríkisráðherrann Wu Dawai. Koizumi gaf í skyn að enn væri langt í land að lausn deilunnar þegar hann sagði að "verði aðeins skipst á brigslyrðum er betra að hittast ekki".



Fleiri fréttir

Sjá meira


×