Erlent

Sænska prinsessan í lífsháska

Viktoría, krónprinsessa Svíþjóðar, lenti í miklum lífsháska í heimsókn sinni til Srí Lanka um helgina. Prinsessan var að heimsækja þau svæði í landinu sem urðu illa úti í flóðbylgjunni annan í jólum. Það var þegar hún var að fara á milli tveggja starfsstöðva Rauða krossins sem hún lenti í mikilli hættu. Prinsessan var í tíu bíla lest og tíminn var orðinn eitthvað naumur. Innlendir bílstjórar brugðust við með því að keyra eins og brjálæðingar á mjóum malarvegum og voru sagðir hafa verið á margföldum leyfilegum hámarkshraða, sem þarna er sextíu kílómetrar. Elísabet Tarras Wahlberg, hofmarskálkur og fylgdarkona prinsessunar, segir að þær hafi verið í mikilli lífshættu. Í eitt skipti hafi bílstjóri þeirra reynt að fara fram úr flutningabíl og þá hafi aðeins munað hársbreidd að þau lentu beint framan á þungum fólksbíl sem kom á móti þeim. Sænskir fréttamenn sem fylgdu prinsessunni voru einnig með lífið í lúkunum. Þeirra bílstjóri keyrði líka eins og brjálæðingur og þótt blaðamennirnir væru hræddir vildu þeir þó ekki missa af prinsessu sinni, þótt þeir væru í lítilli rútu sem var ekki nærri eins vel fallin til hraðaksturs og limúsína Viktoríu. Það vörpuðu því allir öndinni léttar, þegar ekið var með vælandi hjólbarða á áfangastað, og stoppað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×