Innlent

Þögn ofbeldis rofin á Arnarhóli

Þögnin í kringum ofbeldi var rofin á Arnarhóli í dag þegar fjöldi fólks hengdi upp boli til að sýna í verki að það þyrði að tala um ofbeldi sem það hefði orðið fyrir.  Það voru samtökin Styrkur, úr hlekkjum til frelsis, og verkefnið Blátt áfram sem skipulögðu athöfnina á Arnarhóli í dag en hún var stutt af Stígamótum, Samtökum um kvennaathvarf, Kjarki, Femínistum, Unifem og Íslandsdeild Amnesty International. Tilgangurinn var að hvetja fórnarlömb ofbeldis til að segja frá ofbeldi sem þeir hafa orðið fyrir. Og vitnisburður fórnarlamba ofbeldis er hrikalegur eins og sjá mátti á áletrunum bolanna í dag. Svava Björnsdóttir, verkefnastjóri Blátt áfram, segir að með átakinu sé verið að gefa þeim sem sætt hafi ofbeldi tækifæri til að rjúfa þögnina, sama hvernig mynd ofbeldis sé um að ræða. Hún kveðst vona að þetta muni hætta að vera feimnismál.   Elfa María Geirsdóttir var ein þeirra sem hengdi upp bol og rauf þögnina. Hún segir þetta hjálpa, m.a. því ofbeldið og fórnarlömbin verði sýnilegri með athöfninni en ekki aðeins prósentutölur. „Ef ég hefði heyrt talað um ofbeldi þegar ég var krakki þá hefði ég kannski uppgötvað, „já, það er verið að tala um mig“, en ég heyrði það aldrei - og vissi því aldrei að þetta væri rangt,“ segir Elfa.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×