Sport

Á fjórum höggum yfir pari

Ólöf María Jónsdóttir braut í gær blað í sögu kvennagolfsins á Íslandi þegar hún lék fyrsta hringinn á Tenerife-mótinu á evrópsku kvennamótaröðinni og varð þar með fyrsti íslenski kvennkylfingurinn til að gera slíkt. Ólöf María lek holurnar átján á 76 höggum eða fjórum höggum yfir pari og er í 89.-102. sæti eftir fyrsta daginn. Ólöf María lék fjórar holur á fugli, einum undir pari en það sem gerði henni erfitt fyrir voru áttunda og sextánda hola en þær lék hún á tveimur höggum yfir pari. Ólöf María sagði í samtali við Víkurfréttir í gær að það væri enginn dauðadómur að vera á 76 höggum en hlutirnir hefðu ekki fallið með henni. "Boltinn fór ekki eins og ég ætlaðist til, sérstaklega með járnunum á braut. Ég átti í hinu mesta basli með að hita flatirnar og það var minn helsti veikleiki í dag. Ég var að vippa vel og eins voru púttin í lagi. Ég sá marga góða hluti í spilamennskunni sem ég hef verið að vinna í undanfarið, en aðrir hlutir sem áttu að vera í lagi var ekki að virka," sagði Ólöf sem hefur sett markmiðið á að komast í gegnum niðurskurðinn í dag. "Auðvitað er þetta smá spenna í manni, en ég verð vonandi komin yfir hana á morgun og þá ætla ég að gera betur. Það er ljóst að ég þarf að bæta mig um nokkur högg til að komast í gegnum niðurskurðinn," sagði Ólöf María í samtali við Víkurfréttir. Katie Bakken frá Bandaríkjunum er með forystu eftir fyrsta daginn en hún lék á 66 höggum eða sex höggum undir pari.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×