Innlent

Tarak náðaður en útlægur

Umhverfis - og heilbrigðisnefnd hafði úrskurðað að hundurinn Tarak, sem er átta ára heimilishundur af Colliekyni til heimilis í Reykjavík, skyldi aflífaður. Ástæðan var sú að í ágúst í fyrra hafði hann glefsað í stúlkubarn og faðir þess kært til lögreglu. Úrskurðinum var áfrýjað til umhverfisráðs. Auk lögfræðiaðstoðar fór hundurinn í skapgerðarmat og heilsufarsskoðun hjá sérfræðingum, eins og Fréttablaðið hefur greint frá. Umhverfisráð samþykkti á fundi sínum í vikunni ekki þá kröfu kæranda að hundurinn yrði aflífaður en með vísun til brota á hundasamþykkt gæti ráðið "ekki fallist á að hundurinn verði skráður í Reykjavík." Guðmundur Friðriksson sviðsstjóri dýraeftirlits Reykjavíkurborgar sagði að þetta þýddi að koma yrði Tarak fyrir á nýju heimili utan Reykjavíkur. Eigendurnir yrðu að skrá hann í öðru sveitarfélagi og halda hann þar eða þá að láta aflífa hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×