Innlent

Fischer tekur þátt í fjöltefli

Skákmeistarinn Bobby Fischer ætlar að þakka íslensku þjóðinni stuðninginn við sig með því að bjóða landsmönnum í fjöltefli í Vetrargarðinum í Smáralind í dag. Verður það í fyrsta sinn í þrettán ár sem Fischer teflir hefðbundna skák á opinberum vettvangi en síðast gerðist það í einvíginu fræga við Spasskí í Júgóslavíu árið 1992. Sem kunnugt er hefur Fischer þróað eigin tegund skákar og í raun snúið baki við hefðbundinni skák. Hann tefldi þó við samfanga sína í fangelsinu í Japan og kann enn réttu tökin á taflmönnunum. Sæmundur Pálsson, vinur Fischers, segir gott að hann vilji tefla fjöltefli við Íslendinga og fagnar því sérstaklega að hann vilji tefla hefðbundna skák. "Mér finnst þetta mjög gott hjá honum og held að margir hljóti að taka þátt. Skákin er í miklum blóma á Íslandi, sérstaklega fyrir tilstuðlan Hrafns Jökulssonar sem hefur unnið ómetanlegt starf fyrir skákina," segir Sæmundur. Fjölteflið fer fram í Vetrargarðinum í Smáralind í dag og hefst klukkan tólf á hádegi. Allir eru velkomnir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×