Innlent

Kann unga fólkið ekki að spara?

Gleymdi verðbólgukynslóðin að kenna börnunum sínum að spara? Íslensk ungmenni líta svo á að hafi fólk ekki efni á hlutunum, þá séu bara tekin lán. Samkvæmt upplýsingum frá Ráðgjafastofu heimilanna er sá hópur sem skuldar mest fólk á aldrinum 30 til 40 ára en sá hópur er einnig tekjuhæstur. Að komast í fjárhagserfiðleika um þrítugt er ekkert sem gerist einn tveir og þrír. Forstöðumaður ráðgjafastofunnar segist hafa miklar áhyggjur af yngra fólki, ekki síst með tilkomu 100 prósent íbúðarlána og öflugri markaðssetningu lánastofnana. Upphaf fjármálaóreiðu getur byrjað ósköp sakleysislega, kannski með yfirdráttarláni framhaldsskólanema. Í kjölfarið er farið út í bílakaup á lánum, þá taka kreditkortin við til að fjármagna neyslu sem þýðir að skuldir hrannast upp áður en fólk fjárfestir í húsnæði og stofnar fjölskyldu. Í samnorrænni rannsókn sem SÍNE vann fyrir Íslands hönd, á fjármálum og greiðslubyrði framhaldsskólanema kom fram að íslensk ungmenni eru sammála um að við búum í efnishyggjuþjóðfélagi þar sem máli skiptir að eiga allt það flottasta og nýjasta. Hafi fólk ekki efni á hlutunum þá eru tekin lán. Sitt sýnist þeim hins vegar um það hverjum þetta er að kenna. Reyndar eru þau flest á því að fjölmiðlar og bankar ýti undir neyslu. Einn nefndi sem dæmi að um leið og systir hans varð 18 ára, og þar með lögráða, fékk hún bréf frá banka þar sem henni var boðinn hagstæður yfirdráttur. Þau segja bankana láta lántökur hljóma auðveldar og spennandi. En hvað með sparnað, það að leggja fyrir? Ingólfur H. Ingólfsson, félagsfræðingur og fjármálaráðgjafi, spyr á móti hvar unga fólkið eigi að læra það því hvorki skólarnir né foreldrar kenni krökkunum að spara. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×