Erlent

Brimbrettalæknar fyrstir á staðinn

Slæmt veður og erfiðar samgöngur hamla hjálparstarfi á Nias-eyju. Nú er talið að um fimm hundruð manns hafi dáið í jarðskjálftanum á sunnudaginn. Hjálparstarf stendur yfir á Nias-eyju, vestur af Súmötru, en íbúar þar urðu illa úti í jarðhræringunum. Einna fyrstir á vettvang voru læknar í félaginu SurfAid en þeir höfðu verið á brimbrettum á nálægum slóðum. Erfiðlega hefur gengið að koma hjálpargögnum til bágstaddra vegna veðurs og erfiðra samgangna en margir vegir skemmdust auk flugvallarins á eyjunni. Eyjaskeggjar hafa margir látið í ljós gremju sína yfir seinaganginum en í gær var dreifingin farin að ganga hraðar fyrir sig. Enn er verið að bjarga fólki undan braki. Í gærmorgun náðist þréttán ára gömul stúlka á lífi úr rústum fjölbýlishúss, 52 klukkustundum eftir skjálftann. Indónesísk stjórnvöld skýrðu frá því í gær að 279 lík hefðu fundist og sögðu þau að ólíklegt væri að fleiri en 500 manns hefðu farist.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×