Erlent

Eins og svart og hvítt

"Þetta er eins og svart og hvítt," segir Sólveig Ólafsdóttir um þingkosningarnar í Zimbabwe í gær, í samanburði við síðustu kosningar sem fram fóru í landinu árið 2002. Það voru forsetakosningar þar sem stuðningsmenn Roberts Mugabes beittu stjórnarandstæðinga hörðu og hálfgert borgarastríðsástand ríkti. Mugabe hefur setið á forsetastóli allt frá því landið hlaut sjálfstæði frá Bretaveldi fyrir aldarfjórðungi. Hann er nú 81 árs að aldri. "Andrúmsloftið er allt annað og afslappaðra," segir Sólveig, sem var upplýsingafulltrúi Rauða krossins í Harare á tímabilinu 2001-2004. "Mér vitanlega voru engar biðraðir á kjörstöðum núna og fulltrúar úr sendiráðum hér í Harare hafa fengið hindrunarlausan aðgang að kjörstöðum." Að sögn Sólveigar er hluta ástæðunnar fyrir rólegheitunum í kring um kosningarnar nú að leita í því að stjórnarandstæðingar hafi varla haft nokkurn vettvang til að heyja kosningabaráttu. Stjórnarflokkur Mugabes væri búinn að loka öllum fjölmiðlum sem hleyptu sjónarmiðum stjórnarandstæðinga að. En fjöldi fólks hefði sótt kosningafundi sem stjórnarandstöðuflokknum MDC hefði tekist að halda á endasprettinum fyrir kosningarnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×