Erlent

Enn finnst fólk á lífi

Enn er fólk að finnast á lífi í húsarústum á Nias-eyju á Indónesíu eftir stóra jarðskjálftann sem reið þar yfir á mánudag. Í morgun var nokkrum bjargað á lífi úr rústum húsa í stærstu borg Nias-eyja. Björgunarsveit frá Ástralíu bjargaði ungri konu úr rústunum en hún hafði þá legið ásamt látnu barni sínu og systur í tæpa þrjá sólarhringa. Þá bjargaði björgunarsveit frá Noregi þrettán ára dreng úr rústum fimm hæða byggingar. Þeir eru þó mun fleiri sem finnast látnir og nú telja yfirvöld líklegt að um 2000 manns hafi farist í skjálftanum. Björgunarsveitir eru nú fyrst að komast á afskekktari eyjur og í ljós hefur komið að tjón og mannfall hefur orðið mun víðar en á Nias. Það bætir ekki úr skák og gerir alla leit í rústum erfiðari að sterkir eftirskjálftar urðu í morgun, sá sterkasti upp á 6,3 á Richter. Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna áætlar að um 200 manns þurfi á matvælaaðstoð að halda næstu tvo mánuði. Hjálparstarfsmenn á svæðinu segja að íbúar séu orðnir aðframkomnir af hungri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×