Innlent

Öræfingar fá hæsta styrkinn

Fornleifafélag Öræfa fékk hæstu úthlutun úr fornleifasjóði í ár, um 1,1 milljón króna. Úthlutaðar voru fimm milljónir króna til tíu umsækjenda. Ragnar F. Kristjánsson, formaður Fornleifafélags Öræfa, segist mjög stoltur af styrknum enda sé félagið rekið af áhugamönnum. Styrknum verður varið í uppgröft við Fagurhólsmýri, á Bæ við Salthöfða sem fór undir í eldgosi árið 1362. Ragnar segir að vinna við uppgröftinn hafi hafist fyrir þremur árum og hleðslur veggsins séu mjög heillegar. Segir hann bæinn vera á borð við Stöng í Þjórsárdal. Bærinn er fullur af ösku en uppgreftri verður haldið áfram í maí, segir Ragnar, sem telur að komist verði mjög langt með vinnuna í sumar. Ragnar segir að bærinn hafi fundist fyrir tilviljun árið 1918 þegar reisa átti fjárhús, og var Þjóðminjasafninu send skýrsla það ár. Nokkrar sögusagnir ganga um þennan bæ og talað um að kona hafi fundið dýrindis silkistranga við rústirnar. Ragnar segist þó ekki vita við hverju megi búast en ekki sé útilokað að í bænum leynist gersemar og jafnvel mannabein frá 14. öld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×