Innlent

Sprautulyf fundust á glámbekk

Lyfseðilsskyld verkjalyf í sprautuformi fundust á víðavangi í Innri-Njarðvík í gær. Lyfin eru algeng um borð í skipum og bátum og eru þau notuð þegar slys verða. Það var kona á gangi sem fann poka með verkjalyfjunum sem mjög líklega hefur verið tekinn ófrjálsri hendi úr lyfjakistu í skipi, en frá þessu greinir á fréttavef Víkurfrétta. Í pokanum var sterkt verkjalyf sem nefnist petidín sem hefur svipaða eiginleika og morfín, phenergan sem er notað gegn spennu og kvíða og svo adrenaline sprautulyf sem meðal annars er notað til að örva hjartslátt. Karl Hermannsson, yfirlögregluþjónn lögreglunnar í Keflavík, segir að fyrir nokkrum misserum hafi það verið mjög algengt að lögreglan fengi tilkynningar um innbrot í lyfjakistur báta á Suðurnesjum. Sagði hann að verulega hefði dregið úr slíkum innbrotum að undanförnu. Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna, segist líta málið mjög alvarlegum augum. Hann segir að margir skipstjórnarmenn hafi brugðið á það ráð að taka með sér lyfjakistu skipsins í land eftir hvern róður og sett upp miða í brúarglugga bátsins þar sem fram kemur að engin lyf séu um borð í skipinu - þau hafi verið tekin í land.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×