Innlent

Ályktunar að vænta frá LSH

Ályktun af fundi læknaráðs Landspítala - Háskólasjúkrahúss er að vænta síðar í dag. Ráðið hélt stjórnarfund í hádeginu þar sem rædd voru deilumál innan stofnunarinnar þar sem m.a. hefur verið gagnrýnt af tólf yfirlæknum Landspítalans að stöður sviðsstjóra spítalans séu ekki auglýstar heldur sé skipað í embættin. Mikil ólga hefur verið meðal tólf yfirlækna á Landspítalanum þar sem læknarnir hafa gagnrýnt yfirstjórn spítalans harðlega og meðal annars það að stöður sviðsstjóra væru ekki auglýstar. Jóhannes M. Gunnarsson, forstjóri Landspítala - Háskólasjúkrahúss, sagði í Íslandi í dag í gær að ekki væri um eiginlegar stöður sviðsstjóra að ræða heldur einungis aukin stjórnunarréttindi. Sagði Jóhannes að sviðsstjórar bæru fyrst og fremst faglega ábyrgð, þótt ábyrgð þeirra næði vissulega inn á fjárhagslegt svið. Hann sagði einnig að það væru framkvæmdastjórar lækna og hjúkrunarfræðinga sem kæmu með tillögu til forstjóra að því hverjir þeir teldu heppilegastan til að gegna stöðu sviðsstjóra. Spurður af hverju stöður sviðsstjóra væru ekki auglýstar sagði Jóhannes að þá myndu þær falla undir starfsmannalög spítalans sem myndi gera að verkum að um æviráðningu væri að ræða. „Það er kannski það sem menn eiga mjög erfitt með að ímynda sér að virki í stjórnsýslunni,“ sagði Jóhannes í Íslandi í dag í gær. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×