Innlent

Tíkin tuggði tölvukubb

Litlu mátti muna að páskafrí Vigdísar Esradóttur, forstöðumanns Salarins í Kópavogi, færi í hundana þegar tíkin Una tuggði frá henni tölvukubb með mikilvægum gögnum miðvikudaginn fyrir páska. "Hún náði í kubbinn og tuggði vel og vandlega áður en ég náði honum af henni. Ég reyndi að stinga kubbnum í tölvuna en allt kom fyrir ekki, svo ég þurfti í flýti að skrifa bréf til áskrifenda minna sem átti að fara í póst fyrir páska. Þar að auki sá ég að ég þyrfti að vinna heilan dag í páskafríinu." Vigdís mætti kvefuð og þungbúin til vinnu annan dag í páskum og kunni Unu sinni litlar þakkir, þegar upptökumaðurinn Sveinn kom aðvífandi til bjargar. "Sveinn bauðst til að kíkja á kubbinn, sem var til allrar hamingju enn í ruslafötunni, og sá að lóðningnuna vantaði á hann. Hann bauðst til að reyna að laga kubbinn og viti menn, hann virkar!" segir Vigdís og greinilegt að þungu fargi er af henni létt. "Ég sé fram á að þurfa að vinna í fimmtán mínútur í staðinn fyrir fimm klukkustundir eins og stóð til, og fæ því dálítið páskafrí." Vigdís segist hafa hugsað Unu þegjandi þörfina þegar hún gæddi sér á á kubbnum. "Ég ætla ekki að segja þér orðin sem voru látin fjúka í hita augnabliksins. En ég er löngu búin að fyrirgefa henni enda er hún unaðsleg," segir Vigdís um Unu, sem var ekki neitað um páskasteikina þrátt fyrir uppátækið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×