Erlent

Danska lögreglan engu nær

Lögreglan í Kaupmannahöfn er engu nær um af hverjum líkamshlutarnir eru sem fundust við hliðina á ruslagámi í gærmorgun, þrátt fyrir fjölda vísbendinga frá íbúum á svæðinu. Talið er að líkamshlutarnir séu af karlmanni en beðið er niðurstöðu réttarmeinafræðinga.Tveir afskornir fætur og afskorin hönd fundust við ruslagám á Klerkagötu, innarlega í Kaupmannahöfn, um fimmleytið í gærmorgun. Fjöldi fólks hafði þá gengið fram hjá líkamshlutunum í þeirri trú að þetta væru einungis leifar af útstillingargínu. Lögreglan grunar ofbeldisverk og nefnir sem dæmi að áverkar á líkamshlutunum séu þess háttar að þeir geti ekki verið úr líkhúsi. Fingrafar af handleggnum hefur ekki leitt lögreglu á sporið þar sem það stemmdi ekki við fingraför í skrám lögreglu. Nú er beðið niðurstöðu réttarmeinafræðinga og í framhaldi verða DNA-sýni borin saman við upplýsingar um horfnar persónur í Danmörku, og eins við gagnabanka Interpol, um útlendinga sem saknað er. Fjöldi vísbendinga hefur borist frá íbúum á svæðinu en án árangurs. Lögreglan biðlar enn til almennings og segir málið ekki upplýsast nema með aðstoð hans. Fjöldi hjólfara og fótspora gefa litlar vísbendingar þar sem mannmargt var á þessum slóðum. Talið er að líkamshlutarnir séu af karlmanni en hvorki aldur né þjóðerni hafa verið staðfest. Þetta er annað voðaverkið sem kemur upp í Danmörku á skömmum tíma en fyrir nokkrum vikum myrti karlmaður tvö börn sín vegna afbrýðissemi út í konu sína sem ætlaði að skilja við hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×