Erlent

Fyrsta sinn sem páfi messar ekki

Jóhannes Páll páfi reyndi árangurslaust að ávarpa fjöldann við Vatíkanið í morgun. Í fyrsta sinn í 26 ár í embætti messaði páfi ekki á páskadag. Vatíkanið hefur ekki gefið út neinar yfirlýsingar um heilsu páfans síðan hann útskrifaðist af sjúkrahúsi fyrr í þessum mánuði. Alls hefur hann verið 28 daga á sjúkrahúsi síðastliðna tvo mánuði. Hann er nú 84 ára og þjáist af Parkinsons-veiki og mikilli gigt. Vegna öndunarerfiðleika var nýlega gerð skurðaðgerð á barka hans og er hann með slöngu í hálsinum til að hjálpa honum við að anda. Vegna veikindanna hafa kardinálar annast allar messur og kirkjulegar athafnir Páfagarðs um páskana, þar með talið páskamessuna í morgun. Það er í fyrsta sinn síðan páfi tók við embætti sem hann tekur ekki þátt í páskamessunni. Hann kom hins vegar út í glugga Vatíkansins í morgun þar sem tugþúsundir manna höfðu safnast saman. Var hljóðnemi færður að vitum hans en þaðan heyrðust hins vegar aðeins óljós hljóð en engin skiljanleg orð. Að lokum gerði hann krossmark með höndum sínum og hljóðneminn var fluttur á brott.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×