Skoðun

Dauði eða blessun landsliðsins

Nú er ljóst að Eiður Smári Guðjohnsen, fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu, mun hvorki spila með liðinu gegn Króötum í undankeppni HM í Zagreb á laugardaginn né vináttuleikinn gegn Ítölum í Padova á miðvikudaginn eftir viku. Eiður Smári er meiddur á læri og var það sameiginleg ákvörðun Sveinbjörns Brandssonar, læknis íslenska landsliðsins, og læknis Chelsea að hann myndi ekki vera orðinn leikfær fyrir leikinn á laugardaginn. Eiður Smári hefur spilað undanfarna tuttugu og fimm leiki með liðinu í undankeppni EM og HM og verið, svo vægt sé til orða tekið, yfirburðamaður í liðinu. Hann hefur borið uppi sóknarleik íslenska landsliðsins undanfarið og spyrja menn sig hvort sóknarleikur liðsins verði fugl né fiskur án Eiðs Smára. Hann hefur skorað þrjú af fjórum mörkum íslenska liðsins í undankeppni HM og lagt upp fjórða markið. Hann hefur reyndar ef allt er tekið saman komið nálægt fjórtan af þeim fimmtán mörkum sem íslenska liðið hefur skorað í undankeppni EM 2004 og undankeppni HM 2006. Eina markið í þessum tveimur undankeppnum sem hann kom ekki nálægt var sigurmark Péturs Marteinssonar í Færeyjum í ágúst 2003. Hann hefur skorað átta mörk af þessum fimmtán og verið miðpunktur alls þess sem hefur verið framkvæmt í sóknarleik íslenska liðsins. Hann er eini framherji liðsins sem getur haldið boltanum og leikið á menn og það er óréttlátt að ætlast til þess að einhver geti tekið við hlutverki hans. Hann er karlmaður innan um börn í íslenska liðinu og því virðast ekki vera miklar líkur á því að íslenska liðið eigi eftir að vera mjög ógnandi í leiknum gegn Króötum. Á hinn bóginn gerir fjarvera hans það mögulegt fyrir landsliðsþjálfarana Ásgeir Sigurvinsson og Loga Ólafsson að breyta aðeins um áherslur í sóknarleiknum. Leikmenn íslenska liðsins hafa hingað til treyst meira en góðu hófi gegnir á Eið Smára með misjöfnum árangri. Nú þurfa aðrir leikmenn liðsins að taka ábyrgð, menn eins og Heiðar Helguson og það er spurning hvort Heiðar standist prófið. Líklegt er að Ásgeir og Logi fari endanlega algörlega ofan í skotgrafirnar, stilli upp ellefu verkamönnum sem berjast með hjartanu, hlaupa úr sér lifur og lungu en munu ekki verða líklegir til að skapa hættu inn í vítateig andstæðinganna. Við værum þá að horfa upp á endurhvarf til níunda áratugarins þar sem íslenska liðið treysti á hornspyrnur og aukaspyrnur til að skora mörk. Allt byggðist á sterkum varnarleik með mörgum mönnum og síðan var sótt upp á von og óvon. Án Eiðs Smára er hægt að bjóða upp á þessa leikaðferð án þess að misbjóða leikmönnum og það verður þó aldrei svo að fjarvera besta manns íslenska liðsins hvetji samherja hans til dáða, laði það besta fram í þeim og skili góðum úrslitum. Íslenska liðið hefur nefnilega alltaf verið best þegar enginn hefur trú á því - nokkuð sem er klárlega raunin í þessu tilfelli. Óskar Hrafn Þorvaldsson -oskar@frettabladid.is


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×