Erlent

Krytur í Kirgisistan

Forseti Kirgisistans hefur fyrirskipað opinbera rannsókn á meintum svikum í þingkosningum landsins í febrúarlok. Þúsundir manna flykktust út á götur stærstu borga landsins í gær og kröfðust afsagnar forsetans. Kirgiskir stjórnarandstæðingar hafa sakað Askar Akajev, forseta landsins, um að hafa hagrætt úrslitum kosninganna svo að þingmenn hliðhollir honum næðu kjöri. Með því gæti hann framlengt veru sína á forsetastóli um eitt kjörtímabil enn, en samkvæmt núgildandi lögum á Akajev að láta senn af embætti. Akajev hefur verið forseti lýðveldisins síðan á dögum Sovétríkjanna. Mótmæli hafa farið stigvaxandi í landinu síðustu vikur og náðu þau hámarki í gær þegar ríflega 17.000 manns í stærstu borgum landsins kröfðust afsagnar Akajevs enda þótt hann hefði fyrirskipað rannsókn á kosningunum. Um helgina lögðu mótmælendur undir sig stjórnarbyggingar en lögregla rak þá á dyr. Stjórnmálaskýrendur þykjast sjá í mótmælunum hliðstæðu við hinar friðsamlegu byltingar sem urðu í Úkraínu og Georgíu á síðasta ári og spá því að Akajev muni senn víkja úr embætti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×