Erlent

Dómarar lífs og dauða

Vandamenn Terri Schiavo bíða nú milli vonar og ótta eftir að alríkisdómari skeri úr um hvort fjarlægja megi næringarslöngur sem halda lífinu í þessari 41 árs heilaskemmdu konu. Málið er orðið stórpólitískt eftir að Bandaríkjaþing samþykkti lagafrumvarp sem felur alríkisdómara úrskurðarvald í málinu. Á sunnudag kom Bush forseti skyndilega úr fríi sínu til að undirrita lögin. Terri Schiavo hefur verið án meðvitundar í 15 ár en getur þó andað hjálparlaust. Eiginmaður hennar vill að hætt verði að veita henni næringu í æð svo hún fái að deyja en hann segir konu sína hafa látið í ljós óskir þar að lútandi áður en hún veiktist. Foreldrar hennar eru því hins vegar algerlega andsnúnir. Á föstudaginn voru slöngurnar teknar úr sambandi eftir úrskurð dómara í Flórída og mun hún geta lifað í tvær vikur án þeirra. Málið hefur vakið mikla athygli um allan heim og sýnist sitt hverjum. Í gær gagnrýndi málgagn Páfagarðs harðlega að hætt hefði verið að næra Schiavo og sagði að enginn hefði rétt til að ákveða hvort önnur manneskja lifði eða dæi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×