Innlent

Stofna hagsmunasamtök

Fyrirhuguð er stofnun Félags starfsmanna á fasteignasölum til að standa vörð um lögvarinn rétt starfsmanna til að starfa við fasteignasölu í umboði og á ábyrgð löggilts fasteignasala. Félagið á einnig að vera hagsmunasamtök og vinna að betra verklagi og bæta ímynd stéttarinnar. Guðmundur Andri Skúlason, starfsmaður á Hóli fasteignasölu, skrifar undir auglýsingu um helgina þar sem stofnun félagsins er tilkynnt og óskað eftir áhugasömum til samstarfs. Að hópnum standa starfsmenn á fjölmennum fasteignasölum og löggiltir fasteignasalar. Guðmundur segir að fjölmargir hafi haft samband en of snemmt sé að segja til um hvenær stofnfundurinn verði haldinn. Hann segir að mikil óánægja sé meðal starfsmanna á fasteignasölum um þá stefnu Félags fasteignasala að sérþekking löggiltra fasteignasala á öllum stigum kaup- og söluferlis sé allri annarri þekkingu og menntun æðri. Verið sé að þrengja að öðrum starfsmönnum á fasteignasölum. "Búið er að móta stefnuna. Með auglýsingunni er fyrsta skrefið stigið," segir hann og telur félagið tilbúið að vinna með Félagi fasteignasala ef fasteignasalar "láta af þessum vitleysisgangi". Björn Þorri Viktorsson, formaður Félags fasteignasala, segir að löggiltir fasteignasalar séu ekki að vega að starfsheiðri eða starfsreynslu sölumanna á fasteignasölum en reynt sé að vekja löggilta fasteignasala til umhugsunar um að framselja ekki störf sín of mikið til þessa fólks. Hvorki viðskiptafræðingar né lögmenn hafi næga menntun til að sinna fasteignasölu en lögmenn hafi vissulega ágætan grunn að byggja á. "Þeir eru ekki sérfræðingar í fasteignasölu. Til þess þurfa þeir að mennta sig í því. Það er akkúrat það sem slagurinn stendur um," segir hann og bætir við að telji starfsmenn á fasteignasölum þrengt að sér hafi þeir "klárlega verið að fara langt út fyrir sínar heimildir í störfum sínum. Það er merki um það".



Fleiri fréttir

Sjá meira


×