Innlent

Skógarþrösturinn kominn

Fyrstu farfuglarnir hafa verið að koma til landsins síðustu daga og nú í morgun sást fyrsti skógarþrösturinn við Fuglaathugunarstöð Suðausturlands. Á Suðausturlandi hafa menn orðið varir við nokkur hundruð tjalda í síðustu viku og heldur tjaldurinn sig aðallega á leirunum í Hornafirði og Skarðsfirði. Þá er sílamáfur farinn að sjást, meðal annars á Reykjavíkurtjörn, og álftirnar eru komnar á Suðausturland, en þótt álftin sé sums staðar staðbundin þá fer hún til að mynda alveg frá Suðausturlandi á haustin og kemur aftur á vorin, að sögn Brynjúlfs Brynjólfssonar, fuglaáhugamanns á Hornafirði.  Á næstu dögum er von á farfuglunum sem vekja með okkur þá tilfinningu að vorið sé komið, t.d. lóunni. Brynjúlfur segir að gera megi ráð fyrir því að heiðlóan komi næstu daga og að fyrstu fuglarnir fari að sjást einhver staðar á Suðurlandinu. Í apríl komi svo fleiri og þá í stærri hópum. Skógarþrestir komi til að mynda þúsundum saman og þeir fljúgi lágt með landinu og alveg yfir það, en þetta gerist mjög hratt. Brynjúlfur segir að eftir páska gerist hlutirnir svo hratt. Þá komi fyrstu þúfutittlingarnir og í byrjun apríl detta farfuglarnir svo inn einn af öðrum, gæsir, endur, álftir, vaðfuglar og spörfuglar. Fyrstu fuglarnir sjáist yfirleitt á svipuðum tíma og þetta sé því í föstum skorðum. 23. eða 24. apríl komi svo krían. Brynjúlfur Brynjólfsson segir að fyrsti skógarþrösturinn hafi sést í morgun við Fuglaathugunarstöð Suðausturlands, en hún var stofnuð í síðustu viku á Hornafirði og er öllum opin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×