Innlent

Hundaþjálfun á Botnsheiði

Það var líf og fjör á Botnsheiði við Súgandafjörð á dögunum þar sem hundar og eigendur þeirra voru þjálfaðir í snjóflóðaleit. Veðrið lék við bæði hunda og menn. Hundar af öllum stærðum og gerðum voru samankomnir á vetrarnámskeiði leitarhunda Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Hjörtur Arnþórsson björgunarsveitarmaður segir að um 14 hundateymi hafi komið til þjálfunar og til úttektar. Þeir komi alls staðar af landinu og markmiðið sé að þjálfa þá fyrir snjóflóðaleit.  Það tekur langan tíma og er þolinmæðisverk að þjálfa hund þannig að hann verði fullgildur leitarhundur. Jóhann Ólafsson hundaeigandi var með labrador-hundinn Kol sem hafði fengið æðstu gráðu í snjóflóðaleit. Aðspurður hvað hundar þurfi til að bera til að teljast góðir leitarhundar segir Jóhann að efniviðurinn þurfi að vera til staðar og þá þurfi hundarnir að hafa gaman af þessu og vilja þjóna eigandanum. Allar tegundir geti orðið leitarhundar. Þegar Jóhann er spurður út í æfingar segir hann að fyrst byrji menn á svokölluðum C-prófum en það taki um þrjú ár fyrir hund að komast í A-flokk, þann æðsta. Hundarnir fái í fyrstu að sjá þegar maður týnist og smám saman sé þetta gert erfiðara fyrir þá. Fyrir þá færustu sé grafnar fimm til sex metra djúpar holur þar sem menn fari ofan í og þá þurfi þeir að leita að tveimur til sex mönnum og finna þá innan ákveðins tíma. Þeir finni oftast þá sem þeir eigi að leita að. Það tók Kol ekki langan tíma að finna manninn sem var grafinn þrjá metra ofan í snjóinn. Að launum lék eigandinn sér við hann og hann var sáttur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×