Innlent

Íslendingum ekki sama um stríðið

"Það virðist vera helsta ósk ráðamanna að hægt sé að líta á Íraksstríðið sem sagnfræði sem fennir yfir en við látum þá ekki komast upp með það, enda megum við ganga að því vísu að ekki verði langt í næsta stríð ef við þögnum núna og látum þetta yfir okkur ganga, eða gleymum þessu," segir Stefán Pálsson, fundarstjóri mótmæla friðarsinna, sem söfnuðust saman á Ingólfstorgi í gær til að minnast þess að tvö ár eru liðin frá innrás Bandaríkjamanna og bandalagsþjóða þeirra í Írak. Enduðu mótmælin við Stjórnarráðið. "Við dreifðum 730 spjöldum með nöfnum og persónuupplýsingum um 730 einstaklinga sem fallið hafa í stríðinu, einn fyrir hvern dag. Í lok aðgerðanna setti fólk spjöldin á svartan borða sem skilinn var eftir á tröppum Stjórnarráðsins. Þetta var sterk sjónræn athöfn og ungliðar Samfylkingar og Vinstri grænna lögðust flatir fyrir framan borðana," segir Stefán og bætir við að enginn úr ríkisstjórninni hafi tekið á móti friðarsinnunum utan lögregluliðs. Dagurinn í gær var alþjóðlegur mótmæladagur og fóru mótmæli fram víða um heim. Yfir tíu þúsund mótmælendur söfnuðust saman í Hyde Park í Lundúnum og um 15 þúsund manns í Istanbúl í Tyrklandi. Mótmæli voru skipulögð í flestum borgum Evrópu, en ólíklegt þótti að mannfjöldinn yrði viðlíka og hann var í febrúar 2003 þegar milljónir manna hvaðanæva úr heiminum hvöttu Bandaríkjaforseta til að ráðast ekki inn í Írak.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×