Innlent

Rafmagnstaurar kubbuðust í sundur

Tugir rafmagnsstaura kubbuðust í sundur í veðurofsa á Austurlandi í morgun og fór rafmagn víða af. Tveir bílar skemmdust í Eiðaþinghá þegar staur féll á þá. Við Eiðaþinghá brotnuðu rafmagnsstaurar í röðum. Ísing hafði hlaðist á raflínur, þær sligast undan þunganum, slegist saman og sitnað. Talið er að allt að eitt hundrað staurar hafi brotnað á Austurlandi, meðal annars við bæinn Mýnes en þar urðu íbúarnir, Erla Sigurðardóttir og Erlingur Guðjónsson, vitni að hamförunum. Erlingur segir að þeim hafi verið litið út um eldhúsgluggann og þá hafi þau séð staurana falla einn af öðrum, en það hafi gerst mjög snöggt. Aðspurð hvort þau hafi ekki verið hrædd um húsið og bílana játa þau því. Skemmdirnar virðast mestar hafa orðið á Fljótdalshéraði en þeim fylgdi rafmagnsleysi, meðal annars á Egilsstöðum. Nú síðdegis var enn rafmagnslaust á mörgum sveitabæjum, meðal annars á Héraði, í Borgarfirði eystri og suður til Fáskrúðsfjarðar. Á Mýnesi skemmdust tveir nýlegir fólksbílar þegar einn staurinn féll á þá. Erla segir að annar þeirra hafi verið nýr en hinn hafi verið fjögurra ára. Það hafi verið talsvert tjón.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×