Innlent

Vill framkvæmdaáætlun til fimm ára

Kristín Ingólfsdóttir prófessor var í gær kjörin rektor Háskóla Íslands til næstu fimm ára og verður hún fyrsta konan til að gegna því embætti. Hún telur að styrkja þurfi fjárhag skólans og telur það best gert með því að deildir og stofnanir setji fram framkvæmdaáætlun til fimm ára. Talningu atkvæða lauk fyrir miðnætti og hlaut Kristín rétt rúm 53 prósent atkvæða og Ágúst Einarsson, mótframbjóðandi hennar, tæp 47 prósent. Tæp tíu þúsund manns voru á kjörskrá, þar af tæplega ellefu hundruð starfsmenn Háskólans. Þar var kjörsókn rösklega 74 prósent en aðeins rúm 24 prósent meðal þeirra tæplega níu þúsund nemenda sem voru á kjörskrá. Kristín Ingólfsdóttir, sem hefur doktorspróf í lyfjafræði, verður fyrsta konan til að gegna rektorsembætti við Háskóla Íslands og hún hefur ákveðnar hugmyndir um sóknarfæri skólans í náinni framtíð. Kristín segir alveg ljóst að Háskólinn sé feikilega sterk stofnun og þar hafi verið unnið ákaflega gott starf á undanförnum árum. Nú verði farið í að styrkja enn frekar þetta starf og skólinn búinn undir 21. öldina. Kristín segir að það þurfi að styrkja fjárhags skólans og hún telji að það verði best gert með því að setja fram framkvæmdaáætlun þar sem hver deild og hver stofnun leggi fram stefnu um hvernig hún vilji komast í fremstu röð sinna fræða á næstu fimm árum. Aðspurð hvort hún eigi við að efla eigi rannsóknarþáttinn í Háskólanum segir Kristín að svo sannarlega eigi að gera það. Þá verði framhaldsnámið og grunnámið einnig eflt, en þessir þættir þurfi allir að vera sterkir til þess að Háskóli Íslands standi undir nafni sem rannsóknarháskóli. Hún segir aðspurð að nauðsynlegt sé að blása til sóknar á þeim tímamótum sem háskólinn standi. Grunnur skólans sé traustur og nú þurfi að byggja á þeim grunni. Kristín er gift Einari Sigurðssyni, framkvæmdastjóra hjá Flugleiðum, sem á sínum tíma var fyrsti útvarpsstjóri Bylgjunnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×