Innlent

Rafmagn fór eystra vegna ísingar

Rafmagnsstaurar tóku að brotna hér og þar á Austurlandi vegna mikillar ísingar undir morgun og fór rafmagn víða af í fjórðungnum í kjölfar þess. Bálhvasst var á landinu í gærkvöld og voru björgunarsveitir víða um land kallaðar út. Mikil ísing hlóðst á raflínur þannig að ummál þeirra margfaldaðist. Við það sliguðust þær og ýmist slóust saman eða slitnuðu. En þar sem þær héldu, sliguðu þær rafmagnsstaurana, sem brotnuðu undan farginu. Starfsmaður RARIK á Egilsstöðum sagðist á níunda tímanum í morgun ekki hafa við að taka við tilkynningum um rafmagnsleysi eða slitnar línur og brotna staura. Á Fljótsdalshéraði einu brotnuðu að minnsta kosti 15 rafmagnsstaurar en RARIK-mönnum hefur tekist að koma rafmagni aftur á á Egilsstöðum og Norðfirði, en rafmangslaust er enn á Vopnafirði og Djúpavogi og í Berufirði og á bæjum þar í kring og ef til villl víðar. Aðstæður til viðgerða voru afleitar í morgun, bálhvasst, ofankoma, hálka, blinda og ísing, en nú er veður farið að skána víðast hvar. Þó er enn illviðri á Fjaðrarheiði, Oddskarði og Vatnsskarði eystra, en þar á að fara að hægjast um í dag. Víða var bálhvasst á landinu í gærkvöldi og voru björgunarsveitir kallaðar út á nokkrum stöðum. Björgunarmenn hjálpuðu fólki í bíl á Fjarðarheiði og björgunarmenn voru kallaðir út á Hvolsvelli vegna gróðurhúss sem var að fjúka. Sömuleiðis á Kjalarnesi þar sem spýtnabrak fauk um og þakkantur á húsi var að rifna af. Loks voru björgunarmenn frá Flateyri og Hnífsdal kallaðir að bænum Sæbóli í Önundarfirði þar sem stór hluti af hlöðuþakinu fauk í heilu lagi yfir íbúðarhúsið og svo á haf út. Elísabet Pétursdóttir húsfreyja segir að það hafi verið mildi að aðeins tvær járnplötur hafi farið úr þakinu þegar það flaug yfir húsið og lenti hvorug þeirra í glugga á íbúðarhúsinu. Það var líka afleitt veður á mörgum fjallvegum í nótt , en engin lenti þó í vandræðum enda sárafáir á ferð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×