Innlent

Rafmagnslaust á Austurlandi

Rafmagnsstaurar tóku að brotna hér og þar á Austurlandi undir morgun og er rafmagn meira og minna farið af í fjórðungnum. Þar er mikil ísing sem sligað hefur línur og ýmist slitið þær eða staurar hafa brotnað undan farginu. Starfsmaður RARIK á Egilsstöðum sagðist fyrir stundu ekki hafa við að taka við tilkynningum um rafmagnsleysi eða slitnar línur og brotna staura. Verið er að meta stöðuna hvar fyrst beri að hefja viðgerðir en ljóst er að rafmagnslaust verður víða á Austurlandi eitthvað fram á daginn enda aðstæður allar hinar erfiðustu. Vonskuveður er víða á Norðaustur- og Austurlandi og stórhríð er á Hólasandi. Ekkert ferðaverður er vegna hvassvirðis um Mývatns- og Möðrudalsöræfi og heldur ekki með austurströndinni. Óveður er á Vatnsskarði eystra og Fjarðarheiði og stórhríð er á Fagradal. Spáð er norðaustan stormi á svæðinu fram undir hádegi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×