Innlent

Gjaldfrjáls leikskóladvöl

Reykjavíkurborg hyggst veita öllum leikskólabörnum í borginni tveggja stunda gjaldfrjálsa vistun á næsta ári. Þetta verður annað skrefið sem borgin stígur í átt til gjaldfrjáls leikskóla en síðastliðið haust var fimm ára leikskólabörnum boðin þriggja stunda gjaldfrjáls vistun. Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri kynnti í dag áætlun sem miðar að því að öll reykvísk leikskólabörn njóti sjö stunda gjaldfrjálsrar leikskóladvalar. Skrefin eru fjögur. Það fyrsta hefur þegar verið stigið og segir borgarstjóri að gert sé ráð fyrir hinu næsta árið 2006. Framhaldið ráðist að nokkru af niðurstöðum samninga ríkis og sveitarfélaga um tekjustofna, en þriðja skrefið verði ekki tekið síðar en á árinu 2008. Þegar öll fjögur skrefin hafa verið stigin og stytti foreldrar leikskóladag barna sinna úr átta stundum í sjö nemur uppsafnaður sparnaður einstæðs foreldris 97.680 kr. á ári, en sambýlisfólks 246.200 kr. á ári, að sögn borgarstjóra. Í morgun var greint frá því að leikskólagjöld á Akureyri muni lækka um allt að fjórðung, ef bæjarráð fer að tillögum skólanefndar bæjarins um einföldun og samræmingu gjaldskrárinnar. Verði þetta samþykkt munu leikskólagjöld vegna 650 barna af þeim þúsund sem eru á leikskólum bæjarins lækka um fjórðung, eða um 5700 krónur á mánuði á hvert barn.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×