Innlent

Geta leitað til foreldraþjálfara

Foreldrar sem vita ekki hvernig þeir eiga að ala börnin sín upp geta nú leitað til sérstakra „foreldraþjálfara“. Þegar eitthvað bjátar á er bara hægt að hringja í þjálfarann. Margrét Pála Ólafsdóttir leikskólastjóri segir foreldra eiga að leita aðstoðar alls staðar þar sem þeim dettur í hug en að þeir geri sér grein fyrir því hver veiti hjálpina. Áhorfendur Stöðvar 2 hafa getað séð ofurfóstrur að verki í þáttunum Super Nanny þar sem fara barnfóstrur með rif undir ráði hverju. Þetta eru bandarískir þættir og svo virðist sem þessi vandi sé einna mestur í Bandaríkjunum, að minnsta kosti er boðið upp á mestu þjónustuna í þessum efnum þar. Bandaríska dagblaðið New York Times fjallaði um helgina um foreldraþjálfara og rakin eru nokkur dæmi um slíka þjónustu og fjallað um fólk sem virðist ekki ráða við börn sín, að minnsta kosti hlýða börnin þeim ekki almennilega. Þessi þjónusta er nýjasti liðurinn í sjálfshjálp stressaðra eða ráðvillta foreldra og hefur slegið í gegn í Bandaríkjunum. Þetta vekur óneitanlega upp spurninguna hvort að foreldrar nenni ekki, vilji ekki, eða geti ekki alið upp börn sín. Margrét Pála segir svo alls ekki vera. „Foreldrar eru snillingar í að ala upp börnin sín en við búum í samfélagi þar sem við leitum okkur aðstoðar á öllum sviðum. Og sérfræðiþekking er mikilvæg. Við pöntum okkur smið og förum með bílinn á verkstæði; því ekki að leita aðstoðar með uppeldið líka?“ spyr Margrét Pála. Margrét Pála segir frábært að hafa ráðgjafaþjónustu. Hún sé í boði hjá sálfræðingum, kennurum og fleirum og eins geti jafningjafræðsla annarra foreldra verið góð. Slík ráðgjöf verði hins vegar að vera fagleg. Hún minnir líka á að foreldrar megi heldur ekki láta sérfræðinga segja sér fyrir verkum heldur hlusta á hjarta sitt. Margrét Pála segir það skipta máli að foreldrar viti frá hverjum þeir þiggja ráð og það skorti í þessu bandaríska kerfi. Hún kveðst sjálf hafa velt fyrir sér hvaða þjálfun konan, sem beri heitið „ofurfóstran“ í fyrrnefndum þáttum, hafi í þjálfun og tamningu ungra barna. Þegar bandaríska þjónustan er skoðuð virðist oft sem sé á ferðinni almenn skynsemi, eða það sem á ensku heitir „common sense“. „Þetta er nú eitt af fáum sviðum þar sem ég er sammála Milton Friedman sem sagði einhvern tímann: Common sense is not so common,“ segir Margrét Pála Ólafsdóttir leikskólastjóri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×