Innlent

Bónus sleppt í verðkönnun

Verði í Bónus var sleppt í verðkönnun sem verðlagseftirlit Alþýðusambands Íslands birti á miðvikudagskvöld. ASÍ telur að starfsmaður Bónuss, sem var í Krónunni þegar verið var að taka þar niður verð, hafi haft óeðlileg afskipti af könnuninni með því að fylgjast með starfsmanni ASÍ. Bónus hafi hugsanlega náð að breyta verði hjá sér. "Við vinnum þetta eftir nákvæmum og þröngum reglum sem við mótuðum í samstarfi við Samtök verslunar og þjónustu til að ekki kæmu upp svona deilur. Það er ekki hægt að una við að reynt sé að hafa afskipti af verðkönnun eða ná forskoti í verði. Okkar hlutverk er að tryggja jafnræði og hlutleysi við þessa verðupptöku. Eina leiðin sem við getum farið er að fella viðkomandi fyrirtæki út úr könnuninni," segir Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ. Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss, segir að Bónus sé ósammála þeim málflutningi ASÍ að starfsmaður Bónuss hafi reynt að hafa afskipti af verðkönnuninni en treysti því að könnunin sé unnin af heilindum og ASÍ geri sitt besta.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×