Innlent

Hundruð rýma vestan megin

Vinna við rýmingaráætlun og viðbrögð við eldgosi í Mýrdalsjökli er langt komin og má búast við að niðurstöðurnar liggi fyrir í byrjun júní. Í haust hefst svo undirbúningur fyrir almannavarnaræfingu sem á að halda í október. Áætlunin tekur til hundruða manna á Hvolsvelli, í Fljótshlíð og Landeyjum ef jökulhlaup fer niður Emstrur og Markarfljót. Fólkið færi líklega á Hellu og nágrenni. Rýmingaráætlunin er meðal annars byggð á hermiflóðum sem hafa verið látin renna niður Markarfljót og Emstrur í tölvu til að almannavarnir geti betur áttað sig á því hvar þurfi að rýma hús í kjölfar eldgoss eftir því hvert flóðið rennur. Yfirgnæfandi líkur eru á því að flóðið renni í vesturátt og þarf þá að rýma þann hluta Vík, sem stendur niðri á sandinum, og bæina fyrir austan Vík, fyrst og fremst Höfðabrekku. Þar búa nokkur hundruð manns og færi fólkið í þann hluta þorpsins sem stendur ofar. Sveinn Pálsson, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, segir að til sé 20-30 ára gömul rýmingaráætlun sem standi fyrir sínu. Samkvæmt henni geti rýming átt sér stað á 30-40 mínútum. Einu raunverulegu breytingarnar sem hafi átt sér stað sé sameining allra almannavarnanefndanna í sýslunni. Í seinni tíð hafa fundist sannanir um að hlaupið geti í vestur frá Mýrdalsjökli og þarf því líka að vera til rýmingaráætlun í Fljótshlíð, Þórsmörk, á Hvolsvelli og í Landeyjum. "Langflest hlaup fara niður Mýrdalssand og landslagið undir jöklinum er kannski þannig að það eru langmestar líkur til þess. Í seinni tíð hafa menn aftur á móti fundið sannanir um hlaup í aðrar áttir og það er það sem menn eru að vinna út frá núna. En líkurnar á því eru miklu minni," segir Sveinn. Rýmingaráætlunin er unnin undir stjórn Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjórans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×