Innlent

Breytingar leikskólagjalda boðaðar

Leikskólagjöld á Akureyri munu á næstunni lækka um allt að fjórðung og borgarstjórinn í Reykjavík ætlar að kynna breytingar á leikskólagjöldum í dag. Þær breytingar hljóta að vera til lækkunar því borgaryfirvöld boða ekki til blaðamannafundar til að kynna hækkanir á þjónustugjöldum. Lækkunin á Akureyri er háð því að bæjarráð fari að tillögum skólanefndar bæjarins um einföldun og samræmingu gjaldskrárinnar. Verði þetta samþykkt munu leikskólagjöld vegna 650 barna af þeim þúsund, sem eru á leikskólum bæjarins, lækka um fjórðung, eða um 5700 krónur á mánuði á hvert barn. Þetta á við um börn giftra forledra sem hingað til hafa þurft að borga mun hærri gjöld en börn einstæðra foreldra. Hins vegar er ekki sjálfgefið að einstætt foreldri sé fátækt eða að hjón séu rík, segir Sesselja Sigurðardóttir hjá Leikskólum Akureyrar. Í nokkrum tilvikum munu gjöldin hækka en verið er að móta úrræði til að mæta því líka. Útgjaldaauki bæjarins vegna þessa verður 25 til 30 milljónir króna á ári. Fullt gjald fyrir barn hjóna á leikskólum Akureyrar er nú tæp 28 þúsund en verður rúm 22 þúsund. Svo vill til að einmitt þegar þessar breytingar á Akureyri eru að komast í hámæli hefur Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri boðað til blaðamannafundar í dag til að kynna breytingar á leikskólagjöldum í borginni. Væntanlega eru þar einhverjar lækkanir í spilunum líka en ekki fengust nánari útfærslur á þeim fyrir hádegisfréttir. Sérfræðingar í sveitarstjórnarmálum, sem gjarnan líta pólitískum augum á hlutina, telja þetta fyrsta fyrirboða komandi sveitarstjórnarkosninga eftir rúmt ár.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×