Innlent

Sérsamningar skólanna slá í gegn

Sérkjarasamningur í Sjálandsskóla í Garðabæ er tilbúinn og í höndum Kennarasambandsins og launanefndar sveitarfélaganna. Einkaskóli Ísaks Jónssonar lauk við gerð einstaklingssamninga við átta af tíu kennurum í vikunni og í Tjarnarskóla, sem einnig er einkaskóli, er hugað að breytingum. Reykjavíkurborg ætlar að semja sér við kennara og stjórnendur nýs skóla í Norðlingaholti. Allir vilja skólarnir semja í takt við fimmtu bókun í kjarasamningi grunnskólakennara og launanefndarinnar. Þar stendur að hægt sé að taka upp hliðstæð vinnutímaákvæði og gilda hjá öðrum háskólamenntuðum starfsmönnum sveitarfélaga í tilraunaskyni til eins árs. Stefán Jón Hafstein, formaður fræðsluráðs, segir um fimm aðra skóla í Reykjavík hafa sýnt því áhuga að gera sérsamninga innan sinna veggja: "Við teljum þó nauðsynlegt að frumkvæði að breytingum innan rótgróinna skóla komi sameiginlega frá kennurunum og skólastjórnendum." Edda Huld Sigurðardóttir, skólastjóri Ísaksskóla, segir laun kennara þar verða í grunninn 240 þúsund en aukist um tíu þúsund fyrir umsjónarkennara. Kennararnir semja síðan sér um umframlaun hvers. Edda vill ekki gefa upp hver þau séu en segir kennarana mjög ánægða. Laun grunnskólakennara við Sjálandsskóla verða minnst 290 þúsund á mánuði, samkvæmt Morgunblaðinu. Gunnar Einarsson, forstöðumaður fræðslu- og menningarmála Garðabæjar, staðfesti það ekki í gær en hann hafði ekki tíma til viðtals. Margrét Theodórsdóttir, skólastjóri Tjarnarskóla, segir lengi hafa tíðkast að greiða kennurum einkaskólans hærri laun en sveitarfélögin geri: "Okkur finnst svo margt spennandi að gerast í kjaramálum og því tel ég að við hugsum okkar gang varðandi samninga fyrir næsta vetur." Kristinn Kristjánsson situr í samstarfsnefnd Kennarasambandsins og launanefndarinnar en undir hana þarf að bera sérsamninga: "Eina erindið sem hefur komið fyrir nefndina er frá Sjálandsskóla. Við stefnum að því að afgreiða það á næsta fundi en á hvorn veginn þori ég ekki að segja til um."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×