Innlent

Skreytir sig með vafasömum fjöðrum

Olís er vinsælasta fyrirtækið í smásölu samkvæmt svokallaðri Ánægjuvog Gallups og fagnar mjög. FÍB telur hins vegar að fyrirtækið skreyti sig með vafasömum fjöðrum, enda hafi könnuninni lokið um mánuði áður en samráðsskýrsla Samkeppnisstofnunar kom út. Markaðsstjóri Olís telur fólk gera greinarmun á eigendum fyrirtækisins og þeirri þjónustu sem boðin er.  Auglýsing frá Olís þar sem niðurstaða könnunarinnar er kynnt hljómaði á öldum ljósvakans í gær og kom kannski einhverjum á óvart að olíufélag væri svona vinsælt í ljósi nýliðinna tíðinda af samráði þeirra. Þessi könnun Gallup var gerð frá júlí og fram í lok september, skýrsla Samkeppnisstofnunar var hins vegar ekki gerð opinber fyrr en um mánuði síðar eða í lok október. Félag íslenskra bifreiðaeigenda telur einmitt að Olís sé að nota vafasamir fjaðrir til að skreyta sig með og flaggi niðurstöðunum sem nýjum, en fólk hafi verið spurt um fyrirtækið löngu áður en það vissi hvernig olíufélögin þrjú hefðu hagað sínum málum. Helga Friðriksdóttir, markaðsstjóri Olís, sagðist í samtali við Stöð 2 fagna þessum niðurstöðum, en hún vissi ekki hvers vegna Gallup hefði ekki birt þær fyrr. Hún taldi ekki að það hefði breytt miklu fyrir fyrirtækið hefði könnunin verið gerð eftir að samráðsskýrslan kom út því fólk geri greinarmun á þessum  tveimur málum, og geri greinarmun á eigendum fyrirtækisins og starfsfólkinu sem veiti þjónustuna á bensínstöðvum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×